Friðarhugleiðsla á Nýju tungli 13 desember 2012 kl 20!

13 desember nk. er Nýtt tungl.
Á nýju tungli er upplagt að óska sér og biðja bænirnar sínar.
Það eru umbreytingatímar á Jörðinni okkar – og því er svo mikilvægt að við sameinumst mannfólkið í kærleiksríkri og friðsælli bæn. Nýja tunglið 13. desember er seinasta nýja tungl ársins 2012 – við erum að stíga inní nýja orku og því er upplagt að hreinsa hugann og sjá fyrir sér frið og kærleika umvefja árið 2013.
Ég býð öllum þeim sem vilja og þrá Frið í heiminum, og hjarta sér, að taka þátt!
Stígum inní nýja orku -nýtt ár-  saman – sem eitt!

Friðarhugleiðsla:
Fjólublátt kerti – hreinsað með uppáhalds ilmolíunni þinni.
Hreinsaðu hugann og farðu með athyglina í hjartað þitt. Finndu allt það sem þú ert þakklát/ur fyrir. Sæktu kærleikann, auðmýktina og friðinn fyrir að fá að vera til á þessu augnabliki.
Kveiktu á kertinu þínu með fallegustu hugsanirnar þínar og drauma í huga. Sjáðu jörðina fyrir þér baðaða í ljósi og friði. Sjáðu fólk jarðar sameinast í friði og kærleika.
Sittu með kertaloganum þínum í að minnsta kosti 15 mínútur.  Sjáðu fyrir þér þig sjálfa/nn baðaða í ljósi og kærleika. Og sjáðu þig uppfylla alla þína drauma á næstu mánuðum. Sendu fólkinu þínu ljós – en ekki gleyma að biðja fyrir sjálfri/um þér! Sendu svo jörðinni extra mikið ljós og frið. Sjáðu fyrir þér í huganum öll hin kertaljósin sem eru tendruð á þessum sama tíma í sömu friðarbæninni. Sjáðu þessi ljós sameinast og umvefja jörðina og okkur öll í kærleika og friði. Öll ljósin okkar sem tendruð eru í sama tilgangi!

Svo er hér friðarbæn sem gott er að fara með upphátt að minnsta kosti 3svar sinnum:

Friðurinn fyrir framan mig
Friðurinn fyrir aftan mig
Friðurinn fyrir ofan mig
Friðurinn fyrir neðan mig
Friðurinn allt umhverfis mig
Í dag geng ég í friði
Í dag er ég friður

Leyfðu svo friðarkertinu þínu að brenna reglulega yfir hátíðirnar. Til að friðarbænin þín dansi umhverfis þig og þína á þessum helgu tímum.
Svo þegar kertið hefur brunið niður – og slökkt á sér sjálft. Farðu þá með það og hentu útí sjó eða lifandi vatn(sem rennur í átt til sjávar) – til að innsigla bænina þína!

Ljós og friður

Úní