*Gyðjur í fornum sið ~ helgarnámskeið*

Frigga

Gyðjur í fornum sið – að finna gyðjuna í eigin rótum
-Helgarnámskeið í Móðurhofi á Stokkseyri-
16.-18. september 2016

Valgerður H. Bjarnadóttir og Unnur Arndísardóttir

Í hinum forna heiðna sið voru margar ólíkar gyðjur og þær komu úr ýmsum áttum. Við vitum að Freyja var Vanadís, gyðja Vananna, Gerður var jötnamær, gyðja Jötnanna, Frigg var æðsta gyðja Ásanna og svo voru nornir, valkyrjur og völvur af ýmsum ættum. Stundum renna þær saman og allar þessar sem hér eru nefndar eru kallaðar Ásynjur, þótt þær séu upprunalega af ýmsum “kynþáttum”. Freyja á sér ótal nöfn og hugsanlega er freyja ekki nafn heldur titill, og ýmsar gyðjur og hofgyðjur hafi þannig verið freyjur.  Snorri segir í Skáldskaparmálum að allar gyðjurnar megi nefna með annarra nafni. Svá má kenna allar ásynjur at nefna annarrar nafni ok kenna við eign eða verk sín eða ættir.”

Rætur okkar eru þó ekki bara norrænar, þær eru líka keltneskar og hugsanlega samískar, og allir þessir menningarstraumar tengjast saman í sögnunum og hugmyndunum sem við erfðum.

Á þessu námskeiði munu þær Unnur og Valgerður flétta saman fróðleik um gyðjurnar í rótum okkar, hugarferðum, draumum, verkefnum og athöfnum sem geta hjálpað okkur að tengjast þeim betur og finna sýn okkar á þær og tilfinningu fyrir þeim.

Tungl fyllist þessa helgi og námskeiðið hefst með athöfn á föstudagskvöldið kl. 20.00
Svo höldum við áfram frá kl. 10 til 21 á laugardag og 10 til 14 á sunnudag.

Skráning á [email protected]

Hægt er að vera einungis með á Tunglathöfninni á föstudagskvöldinu en það kostar 5000 kr
Einnig er hægt að vera með einungis laugardag og sunnudag en það kostar 25.000 kr
Öll helgin kostar 28.000 kr

Námskeiðið fer fram í Móðurhofi, að Eyrarbraut 47 á Stokkseyri.

Valgerður BjarnadóttirValgerður H. Bjarnadóttir rekur starfsemi sína undir heitinu Vanadís. Hún er félagsráðgjafi að mennt, með BA-gráðu í heildrænum fræðum með áherslu á draumafræði og MA í femínískri trúarheimspeki og menningarsögu með áherslu á norræna goðafræði og gyðjutrú. Hún hefur starfað að málefnum kvenna, kennslu og ráðgjöf  í áratugi og hefur fjölþætta reynslu að baki. MA-ritgerð Valgerðar fjallar um Freyju og tengsl hennar við aðrar gyðjur, bæði norrænar og frá fjarlægari slóðum. Hún heitir The Saga of Vanadís, Völva and Valkyrja – Images of the Divine from the Memory of an Islandic Woman (kom út á bók hjá LAP í Þýskalandi 2009). Nánari upplýsingar um Valgerði má nálgast á www.vanadis.is

UniUnnur Arndísar seiðkona og jógakennari er hofgyðjan í Móðurhofi, en þar hefur hún haldið athafnir og námskeið um nokkurt skeið. Í Móðurhofi koma konur saman og fræðast um Gyðjuna, tunglorkuna og hinn helga kvenkraft. Unnur tengir saman mismunandi hefðir í athöfnum sínum. Hún hefur lært og numið frá Indjánum Norður Ameríku, Yogahefðir austursins og hefur hún einnig tileinkað líf sitt gyðjunni og sór eið sem Systir Avalon. Unnur hefur þróað íslenskar jarðarathafnir í tengslum við Norræna Árstíðarhjólið, þar sem hún beinir augum okkar að gyðjunni og hvernig hún birtist í Móður Náttúru allt í kringum okkur. Nánari upplýsingar um Unni má nálgast á www.uni.is