*María Magðalena í Móðurhofi*

Magdalena

María Magðalena

Gyðjusögur í Móðurhofi

Föstudaginn 12. febrúar kl. 19:00 til 22:00

Örnámskeið um Maríu Magðalenu með Valgerði H. Bjarnadóttur

María Magðalena er hin rísandi gyðja nútímans. Stjarna hennar hefur farið rísandi um allan hinn vestræna heim síðustu áratugi, hægt en ákveðið.

Marían sem kölluð er Magðalena hefur gefið efnivið í ótal helgisagnir, goðsagnir, þjóðsagnir og flökkusagnir síðustu 2000 ár. Hún er postuli postulanna. Höfundur Maríuguðspjallsins. Konan sem fjármagnaði trúboð Jesú og konan sem þvoði fætur hans og þurrkaði með hári sínu. Konan sem smurði hann fyrir vígsluna og dauðann. Eiginkona Jesú, móðir barna hans og ættmóðir franskra konunga og drottninga. Iðrandi hóran og hin andsetna sem Jesú hrakti sjö illa anda út úr. Hin hreina brúður Krists. Kraftaverkakonan og dýrlingur sem ferðaðist frá Egyptalandi til Evrópu. Svo mætti lengi telja.

Trúin á Magðalenu, dýrkun þessarar kvenímyndar visku, innsæis og ástar, sem hefur risið og lagst í dvala á víxl síðustu tvö þúsund ár, á sér án efa rætur í jarðneskri konu, á sama hátt og trúin á Jesú Krist á sér rætur í stórbrotnum og umdeildum manni. Þótt María Magðalena hafi einhvern tíma verið jarðnesk kona, þá er hún löngu orðin að ímynd Gyðjunnar, á sama hátt og nafna hennar, móðir Jesú. Þessar tvær konur, sem bera sama nafn eða titil, hafa með tímanum orðið tvær ólíkar birtingarmyndir gyðjunnar, sem manneskjan hefur trúað á og dýrkað frá upphafi menningar eins og við kunnum að skilgreina hana.

Í Gyðjusögu kvöldsins í Móðurhofi fjöllum við um þessa konu og goðsagnapersónu, sögurnar sem um hana hafa spunnist og síðast en ekki síst um hugmyndir hennar og erindið sem hún á við okkur nú. Valgerður leiðir þátttakendur inn í heim sem er óháður tíma og rúmi, í gegnum fróðleik, spjall og hugleiðslur.

Valgerður BjarnadóttirValgerður H. Bjarnadóttir er félagsráðgjafi með MA í femínískri trúarheimspeki og menningarsögu með áherslu á norræna goðafræði og gyðjutrú. Hún starfar að kennslu, ráðgjöf og ýmsum verkefnum undir yfirskriftinni Vanadís, rætur okkar, draumar og auður.
Nánari upplýsingar á www.vanadis.is og á Facebook á www.facebook.com/Vanadisin

 

 

Námskeiðið kostar 4000 kr
Skráning hjá Unni Arndísar í síma 696-5867 eða á
[email protected]
Námskeiðið fer fram í Móðurhofi að Eyrarbraut 47 á Stokkseyri