Vantar þig meiri ró og frið inní líf þitt? Slaka betur á og tengja þig við tón Móður Jarðar?
Tónaheilun er einföld en áhrifarík leið þar sem Tónhvíslar eru settar á ákveðna punkta á líkamanum, á bein og vöðva til að losa um staðnaða orku og minnka sársauka og verki.
Tónar hafa áhrif á vatnið í líkama okkar og hjálpa okkur að hreyfa við staðnaðri orku og losa um spennu.
Tónaheilun er byggð á þeirra hugmyndafræði að allt í alheiminum sé búið til úr víbringi eða tíðni. Tónaheilun er möguleg því líkama okkar er haldið saman með tíðni. Allar frumur líkamans eru búnar til úr tíðni. Svo þegar við sendum tón inní líkamann – inní frumurnar – hjálpar tónninn hverri frumu að slaka á og umbreyta neikvæðri orku í jákvæða.
Hljóð, tíðni og tónlist getur breytt skapi okkar og líðan. Eins og þegar við heyrum fallegt lag þá allt í einu verðum við hamingjusöm og svo öfugt ef við heyrum lag sem okkur ekki líkar getur skapið okkar orðið vont. Því er svo gott að fá tóna inní líkamann okkar, inní frumurnar. Umbreyta staðnaðri orku og hleypa nýju lífi í líkamann okkar.
Frumbyggjar Norður Ameríku hafa löngum talað um að við mannfólkið þurfum að tengjast Móður Jörð uppá nýtt. Við þurfum að stilla okkur við tón jarðarinnar.
Tónhvíslarnar sem ég nota eru einmitt hannaðar í þessum tilgangi. En þær eru í sama tóni eða tíðni sem jörðin gefur frá sér þar sem hún snýst í alheiminum. Þessi tónn er í okkar vestræna tónkerfi mitt á milli C og Cís. En það var markmið hönnuðar þeirra, Marjorie de Muycnk, að hjálpa mannfólkinu að stilla sig við tón jarðar.
Ég lærði Tónaheilun hjá alveg magnaðri konu í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum. Hún hét Marjorie de Muynck og bjó á verndarsvæði Indjána í Nambé rétt fyrir utan Santa Fe. Ég var í tónlistarnámi í Santa Fe í 3 ár og heyrði af þessari konu og hvernig hún var að lækna fólk með Tónaheilun sinni. Þar sem ég var í Tónlistarnámi – gerði ég mér grein fyrir að bak við Tónlist og tóna bjó eitthvað svo miklu meira en kennt er í hinu hefðbundna tónlistarnámi. Afhverju hafði tónlist svona mikil áhrif á líf mitt? Afhverju gat ég breytt skapi og kallað fram tár hjá mér sjálfri og öðrum bara með því að hlusta á tónlist?
Því fannst mér ég verða að kanna þetta betur. Og þegar ég heyrði af Marjorie þá leytaði ég hana uppi. Ég hafði uppá símanúmeri hennar og hringdi í hana. Sagði henni að ég væri tónlistarkona frá Íslandi og spurði hvort að ég mætti ekki læra hjá henni. Hún var ekki að bjóða uppá nein námskeið þá, en hún bauð mér að koma til síns heima og læra frá henni. Ég heimsótti þessa yndislegu konu og hitti hana reglulega um tíma. Ég þurfti að keyra útí eyðimörkina, inná verndarsvæði Indjánanna til að heimsækja hana. En heimili Marjorie var sem töfrum líkast. Öll hljóðfærin sem hún hafði sánkað að sér á ferðalögum sínum. Hlýlegt andrúmsloftið og töfrarnir í hverju horni. Mér fannst hún hleypa mér inn í sína dýpstu sálarkima að leyfa mér að læra inní hennar eigin heilunarrými. Bjóða mér inná sínu helgustu staði.
Með því að vinna með henni í þennan tíma og í þau skipti sem ég heimsótti Ameríku eftir námsdvöl mína lærði ég nokkuð sem ég mun alltaf búa að. Hún ítrekaði alltaf við mig að í mannslíkamanum byggju töfrar, og maður þyrfti að leyfa sér að trúa á kraftaverk og ljós til að taka á móti heilun.
Marjorie de Muynck var mér mikilvægur kennari á minni lífsleið. Ég er henni ævinlega þakklát fyrir að hleypa mér inn og kenna mér allt sem hún gat kennt mér. Það var því mikill missir þegar hún lést úr Krabbameini árið 2011, eftir 11 ára langa baráttu við sjúkdóminn.
Blessuð sé minning þín elsku Marjorie – ég mun leyða töfra þína áfram alveg eins og þú sagðir svo oft!

Tónaheilun-greinar & blogg
[catlist name=tonaheilunsound_healing]