Á afmælisdegi móður minnar Arndísar Sveinu Jósefsdóttur, þann 23.03 2023, kemur út bókin mín Perlumóðir - kona án barna.

Perlumóðir er reynslusaga mín með ófrjósemi, þar sem ég deili því hvað aðstoðaði mig við að komast yfir sorgina. Ég gef dæmi um jóga, öndunaræfingar og slökun, og hvernig nálgun við Móður Jörð og Gyðjuna aðstoðaði mig við að ná sátt við lífstílinn “barnfrjáls”. 

Bókin er gefin út á Amazon - og fæst bæði á íslensku og ensku.

Teikningarnar í bókinni og hönnun á kápu eru eftir vinkonu mína og listakonuna Heather Wulfers.
Bókin var þýdd yfir á ensku af Kelsey Hopkins.

Það er með auðmýkt og þakklæti sem ég færi heiminum Perlumóðurina - beint frá mínum dýpstu hjartarótum.

"Perlumóðirin er skelin sem býr til rýmið
- hefur áhrif á umhverfið sitt og skilur eftir sig lit á perlunni sjálfri.

Konur án barna eru Perlumæður. Við berum með okkur eiginleika og styrk Móðurinnar - en við getum ekki af okkur börn. “Börnin okkar” og perlur birtast í formi listaverka okkar, verkefna okkar og öllu því sem við sköpum. 

Við Perlumæður færum heiminum regnboga okkar og töfra - við nærum, gefum líf og sköpum - það birtist bara ekki í formi lítils barns."

Unnur Arndísar jógakennari, tónlistar- og Seiðkona, er alin upp í andlegu umhverfi. Móðir hennar Arndís Sveina nuddari, heilari og Seiðkona, kenndi henni að trúa á sjálfa sig og Móður Jörð.
Með ástríðu og kærleik í hjarta hefur Unnur ferðast víðsvegar um heiminn, og lært mismunandi hefðir og andlegar leiðir.  Allar hafa þær leitt hana aftur í heimahagann til Íslands, þar sem hún hefur og finnur mikla tengingu við orku og verur í íslenskri náttúru.  Hún hefur helgað líf sitt Gyðjunni og Móður Jörð. 

Unnur hefur stundað yoga frá árinu 1993, og útskrifaðist sem Jógakennari frá Jóga-og Blómadropaskóla Kristbjargar árið 2010, og hefur síðan unnið sem Jóga-og Hugleiðslukennari. Hún kennir mjúka blöndu af Hatha og Raja Yoga, með líkamstöðum, öndun og hugleiðslu. Unnur leggur í kennslunni sérstaka áherslu á innri frið og ró. 

Unnur lærði einnig Yoga þerapíu í Transformational Hatha Yoga skólanum á Grikklandi árið 2016, & Restorative Yoga frá Yoga Somatics árið 2018.

Unnur hefur þróað Íslenskar jarðarathafnir í tengslum við Norræna Árstíðarhjólið þar sem hún beinir augum okkar að Gyðjunni og hvernig hún birtist í Móður Náttúru allt í kringum okkur.

Sem tónlistarkona og tónaheilari semur Unnur tónlist og ljóð tileinkuð Íslensku Gyðjunni og Móður Jörð.

Hún gefur einnig út Gyðjuathafnir á veraldarvefnum á hverju nýju tungli og á hverri árstíð Móður Jarðar. Þar er hægt að njóta hugleiðslu og töfrandi athafna í tengslum við flæði tunglsins og flæði jarðar. 

Unnur er ófrjó en hefur tekið titilinn Perlumóðir í því skyni að umbreyta orku og skynjun á ófrjósemi. Unnur hvetur ófrjóar og barnlausar konur að taka einnig upp titilinn með stolti, og sanna fyrir heiminum að konur án barna hafi mikilvægu og heilandi hlutverki að gegna á Móður Jörð.